The Wayback Machine - https://web.archive.org/web/20110809051437/http://www.ruv.is/frett/miklar-hreyfingar-rett-fyrir-hrun

Prenta frétt

Senda frétt Horfa á frétt

Miklar hreyfingar rétt fyrir hrun

Gífurlegar fjármagnshreyfingar voru innan Kaupþingssamstæðunnar á síðustu metrunum í lífi bankans samkvæmt heimildum fréttastofu. Ný lán voru veitt og önnur afskrifuð.

Upplýsingar frá lánanefndarfundi Kaupþings rétt fyrir hrun, sem lekið var á netið, hafa valdið miklum titringi.

Fyrir um sólarhring var yfir 200 blaðsíðna glæruyfirlit sett á netsíðuna Wikileaks, en sú síða er beinlínis sett upp til að hýsa upplýsingar sem menn vilja leka. Fréttastofa hefur fengið staðfest frá sínum heimildum að þetta séu ófölsuð gögn. Um er að ræða glærur frá örlagaríkum fundi lánanefndar bankans 25. september í fyrra.

Athygli vekur hversu miklar lánafyrirgreiðslur eru til kjölfestueigenda bankans. Sem dæmi eru lánafyrirgreiðslur til 11 fyrirtækja í Existu „fjölskyldunni" að Skiptum meðtöldum uppá ríflega 300 milljarða að núvirði. Bakkavararbræðurnir, Lýður og Ágúst Guðmundsson eru helstu forkólfarnir í þessum fyrirtækjum. Þá hafa fyrirtæki sem tengjast Kjalari og Ólafi Ólafssyni í Samskipum verið með fyrirgreiðslu uppá 140 milljarðar ef Alfesca er tekin með.

Robert Tchenguiz, stjórnarmaður í Existu, bróðri hans Vincent og veitingahúsafyrirtæki í eigu Tchenguiz hafa fengið fyrirgreiðslu uppá 330 milljarðar króna. Hér er samkvæmt heimildum fréttastofu ekki allt talið sem tengist lánafyrirgreiðslum til þeirra.

Fyrirtæki sem tengjast Baugsfjölskylunni í viðskiptalífinu svo sem Gaumur, Hagar, Landic, Stoðir, Kevin Stanford og Materia Invest höfðu fengið lánafyrirgreiðslu uppá samtals 320 milljarða króna á núverandi gengi.

Opinber birting þessara upplýsinga hefur valdið miklum titringi innan Kaupþings. Lögfræðideild bankans aðvaraði fréttastofu í dag og benti á að notkun þeirra gæti leitt til málsókna. Þá sendi bankinn í skyndi bréf í dag til umsjónaraðila vefsíðunnar Wikileaks. Þar var þess krafist að upplýsingarnar yrðu teknar af síðunni og bent á að samkvæmt íslenskum lögum gætu ábyrgðarmenn átt yfir höfði sér háar fjársektir eða fangelsisrefsingu. Umsjónarmenn síðunnar svöruðu strax fullum hálsi og höfnuðu erindinu.

Fréttastofa hefur heimildir fyrir því að í kjölfar lánafundarins 25. september hafi farið af stað miklar tilfærslur á fjármunum innan Kaupþingssamstæðunnar. Þessar tilfærslur vöktu illan grun hjá breska fjármálaeftirlitinu og urðu til þess að Gordon Brown sendi sérstakar fyrirspurnir Geirs Haarde, þáverandi forsætisráðherra, eins og áður hefur komið fram. Heimildir fréttastofu herma að háum fjárhæðum hafi á þessum skamma tíma fram að hruni verið varið í ný lán, en auk þess hafi stórar fjárhæðir verið afskrifaðar.

 


     
     

frettir@ruv.is


Senda á Facebook

9. ágúst 2011

Streymiþjónusta