Hláka eykur líkur á krapaflóðum og skriðuföllum

Á sunnudagskvöld féll um 100 m breitt krapaflóð í Seyðisfirði í Ísafjarðardjúpi. Á mánudagskvöld barst svo tilkynning um annað krapaflóð við Rjúkanda í Hestfirði í Ísafjarðardjúpi. Bæði flóðin féllu löngu eftir að stytti upp en hlýtt hefur verið í veðri síðustu daga og snjóbráð til fjalla.

Veðurspáin gerir ráð fyrir áframhaldandi hlýindum næstu daga og víða er mikill snjór til fjalla og því má búast við því að krapaflóð geti haldið áfram að falla, þá einna helst í árfarvegum í bröttum hlíðum. Í leysingum eru einnig auknar líknur á grjóthruni og litlum skriðum þar sem frost er að fara úr jarðvegi og þar sem mikið vatn er á ferðinni. Ekki er talin vera hætta í byggð.

Ofanflóð í hlákunni um helgina

Það hlýnaði á landinu í gær, laugardag, og talsverð rigning var á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum. Ofanflóðavaktin hefur fengið fregnir af eftirfarandi flóðum í þessu veðri:

Snæfellsnes
Tvær aurskriður féllu á veginn um Álftafjörð á Snæfellsnesi. Önnur var um 10 m á breidd og 50 cm þykk, hin var um 20 m á breidd og 80 cm á þykkt.

Sunnanverðir Vestfirðir
Aur-/grjótskriða féll á veginn um Raknadalshlíð í Patreksfirði. Skriðan lokaði ekki veginum en hreinsa þurfti veginn. Einnig féll snjóflóð á veginn um Dynjandisheiði í Afréttardal. Flóðið var um 30 m breitt og 120 cm þykkt. Miklir vatnavextir voru á svæðinu.

Norðanverðir Vestfirðir
Nokkrar spýjur féllu í Kirkjubólshlíð og Fossahlíð í Skutulsfirði. Þær stöðvuðust í um 70 m hæð. Einnig féllu a.m.k. tvö snjóflóð í norðanverðum Súgandafirði og þrjú í Bolungarvík. Tilkynnt var um eitt snjóflóð í Hattadal í Álftafirði. Einnig féll krapaflóð nærri Laugará í vestanverðum Ísafirði í Ísafjarðardjúpi. Flóðið var um 10 m á breidd.

Tröllaskagi og Eyjafjörður
Víða á Tröllaskaga hafa fallið litlar spýjur eftir að blotna fór í snjónum. Einnig féll breitt flekaflóð í Kotafjalli í Svarfaðardal. Stórt flekaflóð féll í sunnanverðri Hlíðarskál í Hlíðarfjalli í Eyjafirði. Nokkrar minni spýjur hafa sést í Hlíðarfjalli.

Austfirðir
Allnokkur snjóflóð hafa sést á Austfjörðum eftir að tók að hlýna, flest þeirra voru lítil. Eitt stórt snjóflóð sást á Barðsnesi. Skíðamaður setti af stað lítið snjóflóð í Oddsskarði á sunnudag.

Næstu daga verður rólegheitaveður á landinu en næturfrost víða til fjalla. Líklega mun snjóþekjan jafna sig smám saman og styrkjast þótt litlar spýjur gætu fallið í sól og hita yfir daginn. Enn gæti borið á lagskiptingu í snjónum hátt til fjalla og vegfarendur eru hvattir til að kanna ávallt aðstæður þegar farið er um brattar brekkur.

Aukin hætta á ofanflóðum á Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum

Veðurspáin gerir ráð fyrir talsverðri úrkomu á Suðvestur- og Vesturlandi og sunnanverðum Vestfjörðum í dag, laugardag. Hlýnað hefur um land allt og fellur úrkoman í formi rigningar uppí fjallahæð. Gert er ráð fyrir mikilli ákefð á Snæfellsnesi, Barðaströnd og sunnanverðum Vestfjörðum seinnipartinn og fram eftir kvöldi. Seint í kvöld dregur hratt úr úrkomu og snýst í suðvestanátt með kólnandi veðri. Gert er ráð fyrir mun minni úrkomuákefð á norðanverðum Vestfjörðum í þessu veðri.

Á Snæfellsnesi er talsverður snjór til fjalla en almennt er snjólétt í neðri hluta fjalla á sunnanverðum Vestfjörðum. Þó er snjór víða í lækjarfarvegum.

Það má búast við auknum líkum á votum snjóflóðum og krapaflóðum þar sem mikill snjór er fyrir en grjóthruni og smáskriðum þar sem er snjólétt. Grjóthrun og smáskriður geta fallið án mikils fyrirvara, sérstaklega undir bröttum hlíðum og í kringum ár- og lækjarfarvegi.

Lítill snjór er í þekktum krapaflóðafarvegum og ekki talið að hætta skapist í byggð en ofanflóðavakt mun fylgjast vel með aðstæðum.

Samkvæmt spánni á að verða að mestu leyti þurrt á sunnudag, en grjóthrun og aurskriður geta fallið áfram í hlíðum í nokkurn tíma eftir að úrkoman hættir.

Vegfarendum er bent á að hafa varann á við ár- og lækjarfarvegi á meðan mesta úrkoman gengur yfir.

Uppsöfnuð úrkoma (36 klst) til miðnættis aðfaranótt sunnudags.

Snjógryfjur af Vaðlaheiði 19. apríl

Þrjár snjógryfjur voru teknar á Vaðlaheiði þann 19. apríl til þess að kanna stöðugleika snjóþekju eftir N-hríðarveður síðustu vikna. Gryfjurnar voru teknar í mismunandi viðhorfum og mismikilli hæð til þess að endurspegla breytileika í snjóþekju á svæðinu.

Gryfjurnar sýndu allar lagskiptan vindbrotinn skafsnjó sem hafði rúnnast en lög af skara voru í efri hluta í tveim gryfjum. Þá var einnig djúphrím að finna í tveimur gryfjum en stöðugleikapróf sýndu brot við mikið álag á því lagi í einni gryfju (ECTP 21@49cm) en engar niðurstöður fengust í hinni gryfjunni. Miðlungs álag þurfti til þess að gefa brot í efri lögum gryfjunnar þar sem mestur skari var (ECTN12 @20cm).

Hiti í snjóþekju var nokkuð einsleitur og sambærilegur milli gryfja. Spár gera nú ráð fyrir hláku og mun snjóþekja koma til með að veikjast á meðan hlýindin ganga yfir í fyrstu en styrkjast í kjölfarið þegar frystir á ný til fjalla.

SSV-vísandi gryfja í 664 m hæð.
V-vísandi gryfja í 513 m hæð.
SA-vísandi gryfja í 490 m hæð.

Snjógyfja í Vaðlaheiði 17.apríl

Snjógryfja var tekin í Vaðlaheiði, í Þingmannahnjúki, þann 17.apríl í 670 m hæð og í suðurviðhorfi. Þrálátar norðanáttir hafa myndað lagskiptan vindfleka og dægursveifla hefur einnig haft áhrif á efstulög snjósins, þar sem tvær þunnar hjarnlinsur eru ofarlega í snjógryfjunni. Útvíkkað stöðugleikapróf gaf brot við miðlungsálag sem breiddi ekki úr sér í vindfleka á 23 cm dýpi. Annað brot komið við 22 högg sem breiddi úr sér á 43 cm dýpi milli vindfleka.

Snjógryfja við Húsavík

Í gær var tekin snjógryfja á Reykjaheiði, norðvestan við skíðasvæðið við Húsavík. Þar var harðpakkaður vindfleki sem reyndist mjög stöðugur og þokkalega bundinn við hjarnið, þar sem samþjöppunarpróf gaf enga svörun. Vindflekinn losnaði frá við mikið átak með skóflu og gæti því verið óstöðugari þar sem hann er þynnri.

Snjógryfja í Skálarfjalli 13. apríl

Snjógryfja var tekin í suðvestur vísandi hlíð Skálarfjalls á norðanverðum Vestfjörðum í um 600 m hæð. Gryfjan sýndi lög af rúnnuðum og vindpökkuðum snjó með lagi af skara inn á milli. Neðst í gryfjunni var þykkur grunnur af harðfenni.

Á 20-22 cm dýpi var lag af mýkri vindbrotnum snjó sem fór á samþjöppunarprófi við miðlungs álag (CTM11@22). Á 54 cm dýpi var lag af skara sem gaf sig ekki á samþjöppunarprófi en fyrir ofan þetta lag var hitastigull í gryfjunni fremur brattur. Áframhaldandi frost til fjalla gæti ýtt undir þróun veikleika í snjóþekju efst til fjalla.

Snjógryfja í Mikladal 13. apríl

Snjógryfja var tekin í Mikladal milli Patreksfjarðar og Tálknafjarðar þann 13. apríl. Gryfjan var tekin í 400 m hæð í vestur vísandi hlíð og sýndi vindbrotinn snjó ofan á eldri umhleypingasnjó.

Köntun fannst við lagmót á 40 og 50 cm dýpi og voru köntuðu lögin fremur mjúk miðað við önnur lög í snjóþekjunni. Samþjöppunarpróf sýndi þó ekki svörun á þessum lögum en súlan gaf sig þó undan þéttu átaki. Brattur hitastigull var í snjóþekjunni ofan við köntuðu lögin og áframhaldandi frost til fjalla gæti ýtt undir þróun veikleika.

Snjógryfja í Klettahnjúk 13. apríl

Snjógryfja var tekin í Klettahnjúk í Siglufirði þann 13. apríl í NA vísandi hlíð í 580 m hæð. Gryfjan sýndi vindbrotið nýsnævi ofan á vindpökkuðum snjó með rúnnuðum kristöllum sem hafa lagst ofan á skara. Lag með köntuðum kristöllum var þar fyrir neðan á 70 cm dýpi.

Samþjöppunarpróf gaf slétt brot við miðlungs álag á bæði kantaða laginu (CT14, SP @70cm) sem og á mörkum nýsnævis og vindpakkaðs snævar (CT11, SP @17cm). Síðustu vikur hafa verið ríkjandi NA vindáttir og má gera ráð fyrir því að efsta lagið í þessari gryfju geti verið talsvert þykkara í hléhlíðum sem og í giljum og lægðum. Við sögunarpróf kom í ljós að veikleikinn í kantaða laginu getur breiðst út ef snjóflóð eru sett af stað (PST 37/90 end @70cm).

Hitastigull var fremur brattur í snjóþekjunni ofan við 40 cm en áframhaldandi frost er í kortunum næstu daga sem getur ýtt undir frekari þróun veikleika. Fólk á ferð til fjalla er hvatt til þess að gæta fyllstu varúðar og huga vel að leiðarvali. Snjóflóðaspá Veðurstofunnar má skoða hér.